GULLI HELGA HYGGUR Á FRAMBOÐ Í REYKJAVÍK?Litla Frjálsa hefur heyrt að lagt sé hart að Gunnlaugi Helgasyni, smið og fjölmiðlamanni að bjóða sig fram undir nýjum lista í komandi borgarstjórnarkosningum.

Gunnlaugur, eða Gulli eins og hann er oftast kallaður, hefur um langt árabil starfað sem dagskrárgerðarmaður í útvarpi og sjónvarpi og nú síðast sem einn af dagskrárgerðarmönnum Ísland í Bítið á Bylgjunni.

Vinsældir Gunnlaugs eru miklar og til samanburðar eru þættir hans um endurgerð og breytingar gamalla húsa á Stöð 2, Gulli Byggir, vinsælli en fréttirnar þar á bæ.

Sagt er að listi Gunnlaugs eigi að heita "Betri Borg" og fer það vel því slagorð þessa nýja framboðs verður "Gulli Byggir Betri Borg"!

Það liggur í loftinu að breytingar eru í vændum í borgarmálum Reykvíkinga og er ljóst að þessi brosmildi og vinsæli fjölmiðlamaður á marga fylgjendur og stuðningsmenn og því viðbúið að hann eigi auðvelt með að koma framboði sínu á framfæri.

Þess má líka geta að Gulli hefur yfirgripsmikla þekkingu á innviðum borgarkerfisins, ekki síst hjá Byggingarfulltrúa þar sem hann hefur lent í hinum ýmsu uppákomum síðustu ár.

"GULLI BYGGIR BETRI BORG! - hljómar vel ekki satt?