FRJÁLS FJÖLMIÐLUN AÐ KAUPA FRÉTTABLAÐIÐ?



Litla Frjálsa hefur eftir öruggum og traustum heimildum að búið sé að ganga frá samningi um sölu á Fréttablaðinu til nýrra aðila.

Fyrir liggur að samkvæmt úrskurði Samkeppnisstofnunar, eiga Jón Ásgeir og Ingibjörg að vera búin að selja Fréttablaðið innan 18 mánaða frá afhendingu 365 til Vodafone, sem byrjaði að telja 1. desember s.l.  Ekki var talið heppilegt að þau væru ráðandi hluthafar í Vodafone og Fréttablðinu á sama tíma.  Litla Frjálsa greindi frá því fyrr í mánuðinum að þetta stæði til og má lesa það hér.

Tveir mögulegir kaupendur koma til greina: Frjáls Fjölmiðlun Sigurðar G Guðjónssonar, sem rekur DV og Pressuna og síðan fjölmiðlasamsteypa Róbert Wessman, sem hefur verið að huga að uppbyggingu á nýrri fjölmiðlasamsteypu.  En eins og þekkt er þá var Róbert Wessman og félagar hans stórir hluthafar áður í Pressunni í gegnum Dalinn fjárfestingafélag.

Eins og þekkt er keypti Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður, ásamt félögum sínum, rekstur DV og Pressunar fyrr á árinu og eru kaupin nú liður í kröftugri uppbyggingu Frjálsrar Fjölmiðlunar á fjölmiðlamarkaði.  Samkvæmt heimildum Litlu Frjálsu, er ætlun Sigurðar að blása hressilega í lúðra á nýju ári.

Lögfræðingurinn Sigurður G Guðjónsson hefur mikla reynslu af rekstri fjölmiðla og hefur frá árinu 1989 komið að rekstri fjölmargra útvarpsstöðva, sjónvarpsstöðva, tímarita og dagblaða og það eru fáir sem hafa jafn mikla innsýn í rekstur fjölmiðla og Sigurður og hefur Litla Frjálsa heyrt úr fleiri en einni átt að í undirbúningi sé stórsókn inn á fleiri svið fjölmiðlunar og horft sé til nýmiðlunar í víðum skilningi.

Heimildir herma að Frjáls Fjölmiðlun sé gríðarlega vel fjármagnað til að takast á við sókn inn á ný mið og ekkert verði til sparað til að ná árangri á sviði auglýsinga og nýmiðlunar á komandi misserum.

Rekstur DV og Pressunar hefur hingað til verið í Turninum í Kringlunni en mun fljótlega á nýju ári flytja í hús Íslandsbanka áSuðurlandsbraut, þar sem rúmt verður um reksturinn... og starfsmenn Fréttablaðsins ef af kaupum verður á blaðinu.

Það liggur því í loftinu að miklar hræringar eru framundan á fjölmiðlamarkaði og ljóst að hart verður barist um hverja einustu krónu á komandi mánuðum og árum.