Það fer ekki á milli mála að Jóhann K. Jóhannsson, fréttamaður á Stöð 2, er duglegasti og afkastamesti sjónvarpsfréttamaður landsins. Það er alveg sama hvað kemur upp á, alltaf skal Jói K., eins og hann er kallaður af félögum sínum, vera á staðnum og í viðeigandi búnaði.
Sagt er að hann sé með búnað og fatnað fyrir allar mögulegar aðstæður í bílnum hjá sér og sofi hreinlega með annað augað opið á nóttinni.
Þeir sem horfa oft á fréttir Stöðvar 2 vita ef eitthvað sérstakt kemur upp að þess er ekki langt að bíða að Jói birti frá því fréttir, annað hvort í beinni útsendingu eða fyrirfram teknar upp. Hann er a.m.k. á staðnum.
Dugnaður hans og áhugi á starfinu er slíkur að menn hafa ekki séð annað eins um árabil og það liggur því í loftinu að brátt verður keppni á milli fleiri miðla að fá Jóa til starfa. Litla Frjálsa hefur það fyrir víst að menn hugsi sér að nappa í þennan flotta fréttamann á næstunni.