RÁÐHERRA ÍHUGAR AÐ SETJA LÖG Á FLUGVIRKJA


Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála íhugar alvarlega að grípa inn í kjaradeilu flugvirkja hjá Icelandair, þrátt fyrir yfirlýsingar um annað.  Samkvæmt heimildum innan úr ráðuneytinu, er mikill pirringur í garð flugvirkja sem sagðir eru beita "forkastanlegum aðferðum" í baráttu sinni fyrir bættum kjörum með ósanngjörnum kröfum.

Almennt talið er ekki litið svo á að flugvirkjar hafi það neitt slæmt og eru aðilar ferðaþjónustunnar hreint brjálaðir út í stéttina að boða verkfall viku fyrir jól og krefjast 20% launahækkunar, líkt og talið er að sé krafa þeirra.

Ljóst er að allt stefnir í verkfall nema að ráðherra beiti sér í málinu og það mun hann að öllum líkindum gera ef menn hafa ekki náð saman fyrir sunnudag.

Landslagið í fluginu í dag er með allt öðrum hætti en áður var, þegar Icelandair (og þar á undan Flugleiðir) fluttu mun færri farþega en nú og því var ekki eins mikið undir og nú er.

Skiptifarþegar Icelandair, skipta orðið milljónum og Keflavíkurflugvöllur skiptir orðið of miklu máli fyrir of marga til að ein stétt haldi miklum hagsmunum í gíslingu.

Það liggur í loftinu að flugvirkjar eru ekki uppáhaldi hjá neinum sem tengjast ferðamálum á Íslandi og víðar og þeir njóta heldur ekki stuðnings frá samstarfsmönnum sínum, flugmönnum og flugstjórum.

Icelandair vita líka að ef þeir gefa eftir í samningum við flugvirkja, fá þeir hin "effin" (flugmenn og flugfreyjur) á eftir með ekki síðri kröfur.  Það er ekki stemming fyrir því.

UPPFÆRT KL. 09.00 - Laugardag 17. des.

Talið er að samningar milli flugvirkja og Icelandair séu í burðarliðnum. Mál eru á viðkvæmu stigi og því var ekki talið rétt að grípa inn í samningana af hálfu hins opinbera.