VILLTIR FJÖLMIÐLADRAUMARViðskiptaslagur Róberts Wessmans og Björns Inga Hrafnssonar hefur varla farið framhjá neinum, enda brást Róbert reiður við þegar Björn Ingi seldi DV, Presssuna, Eyjuna og fleiri miðla til Sigurðar G. Guðjónssonar í Frjálsri fjölmiðlun fyrr í haust. 

Róbert og félagar hans í lyfjafyrirtækinu Alvogen í Vatnsmýrinni hafa lengi alið með sér drauma um að byggja upp fjölmiðlaveldi og kenna Birna Inga um að sitja nú uppi með Gestgjafann, Vikuna og Hús og Híbýli í stað DV og Eyjunnar. 

Þeir deyja þó ekki ráðalausir og eru komnir á fullt í samstarf með Kjarnanum um útgáfu fríblaðsins Mannlífs. Þá hafa þeir ráðið Helgu Arnardóttur úr Kastljósinu sem aðalritstjóra. 

Litla Frjálsa hefur eftir áræðanlegum heimildum að Dalurinn, fjölmiðlafélag þeirra Alvogen-manna, sé orðið stór stuðningsaðili Stundarinnar, sem lengi hefur verið á eftir fjármagni til að halda áfram starfsemi þrátt fyrir viðvarandi taprekstur. 

Fjölmiðlafeðgarnir þar á bæ hafa áður unnið með fjármuni auðmanna og neitað því fram í rauðan dauðann. Þannig komst upp seint og um síðir að Gísli Guðmundsson í BL og Guðmundur Kristjánsson í Brim höfðu sett umtalsvert fé í rekstur DV undir stjórn þeirra feðga þótt þeir aftækju alltaf með öllu að sú væri raunin.

Það liggur því í loftinu að allir þessir aðilar muu sjá okkur fyrir fréttum á næstu vikum og mánuðum, því allt eru þetta klárir einstaklingar, góðir fjölmiðlamenn og snjallir viðskiptamógúlar.

Litla Frjálsa segir; verið góðir við hvorn annan yfir jólin!

ATHUGASEMDIR:  Fulltrúar Dalsins og Stundarinnar hafa mótmælt fréttinni og telja hana ranga.  Litla Frjálsa stendur við fréttina.

UPPFÆRT:  Litla Frjálsa hefur trausta heimildir fyrir því að ekki alls fyrir löngu hafi fulltrúar Dalsina reynt að kaupa útvarpsstöðina Áttuna, en ekki tekist.  Var tilboði þeirra hafnað!

Litla Frjálsa hefur einnig heimildir fyrir því að uppi hafi verið - eða eru - að sameina Kjarnann, sem Dalurinn er aðili að og Stundina og væri það liður í uppbyggingu nýju stóru fjölmiðlafyrirtæki.

ATHUGASEMD:

Heill og sæll.

Var bent á þessa færslu þar sem verið er að fjalla um Kjarnann. Það sem kemur fram þar, og snýr að Kjarnanum, er í meginatriðum rangt. Þ.e. það sem er rétt að við erum í samstarfi við Birting varðandi útgáfu Mannlífs. Það er ekkert meira en nákvæmlega það, samstarf um útgáfu mánaðarlegs fríblaðs þar sem við vinnum fréttahlutann og Birtingur vinnur hinn hlutann. 

Ábyrgð á útgáfunni er síðan hjá Birtingi. Við það má bæta að við erum einnig í sambærilegu samstarfi við annað fjölmiðlafyrirtæki, Hringbraut, um framleiðslu á sjónvarpsþætti. 
Hitt sem kemur fram í uppfærslu við færsluna er hins vegar kolrangt. Aldrei hafa átt sér stað viðræður milli Kjarnans og Stundarinnar um sameiningu. 

Og slíkar eru sannarlega ekki í gangi. Þess utan er líka rangt að Dalurinn sé „aðili að“ Kjarnanum. Eignarhald Kjarnans hefur alltaf verið opinbert og birt á heimasíðu Fjölmiðlanefndar (sjá hér: http://fjolmidlanefnd.is/kjarninn-midlar-ehf/). Þær heimildir sem þú hefur fyrir þessu eru því að öllu leyti rangar og framsetningin er beinlínis skaðleg, enda verið að tengja okkur við eignarhald sem er ekki til staðar og sameiningu sem er ekki að gerast. 


Ég bið þig um að leiðrétta þessar rangfærslur og ef það er eitthvað sem þig langar að vita um Kjarnann er ég boðinn og búinn að svara þeim spurningum.

Þórður Snær Júlíusson