COSTCO SLÆR EKKI Í GEGN!Costco nýtur gríðarlegra vinsælda á Íslandi og virðist ekkert vera að draga af þeim vinsældum.  Landinn flykkist í popplínkápunum alla daga og krafsar sig í gegnum nammið og dótið sem fæst þar á spotprís.

Þrátt fyrir miklar vinsældir frá fyrsta degi, hefur Costco ekki tekist að þýða kynningarefni sitt yfir á íslensku og það virðist ekkert vera á dagskrá að reyna að ná til íslendinga á íslensku!!

Litla Frjálsa er með Costco kort, eins og gefur að skilja, og hefur reyndar ekki farið nema tvisvar sinnum í þetta musteri afsláttanna.

Í gær barst ritstjórn tölvupóstur frá Costco - Á ENSKU - þar sem verið er að kynna jólatré og fleira.

Ritstjórn finnst þetta frekar slakt framtak hjá keðjunni því lítið mál er að láta yfirfæra póstinn, sem líklega fer á alla korthafa sem eru ca 100.000 fyrirtæki og einstaklingar, á íslensku.

Litla Frjálsa fór eiginlega í fýlu og varð móðguð við þessa sendingu og ákvað að gefa Costco frí fyrir þessi jól.

Það liggur eiginlega í loftinu að Costco þurfi að gyrða sig í brók og sjá til þess að kynningarefni þeirra og önnur samskipti við íslendinga verði á íslensku héðan í frá.