Bók um Jóhönnu Sigurðardóttur fær góða ókeypis kynningu á RUV



Það hefur vakið athygli hve vel RUV hefur staðið að kynningu á nýútkominni bók Jóhönnu Sigurðardóttur.  Fyrst var langt drottningarviðtal við hana í Kastljósi og síðan lauk sýningu heimildarmyndar í tveimur hlutum nú í vikunni, þar sem Jóhanna fékk að skýra út í einleik sína útgáfu af pólitíkinni.

Það er ekki laust við að skoðanir fólks hafi verið skiptar á samfélagsmiðlum og margir líst hneykslan sinni á því hvernig Ríkisútvarp "allra landsmanna" hefur stigið fast til jarðar í að leggja traustan grundvöll á sölu þessarar bókar sem gefin er út af Forlaginu.

Viðtalið í Kastljósinu og sýning heimildarmyndarinnar hefð klárlega átt meira við eftir áramótin og hefði að auki orkað minna tvímælis en það gerir núna þegar bókin er að koma út.

Vissulega verður gaman að sjá hvernig RUV mun auglýsa bók Davíðs Oddssonar, þegar hún kemur út.  Væntanlega verður auðsótt mál að skipuleggja sambærilega kynningu.

Það liggur í loftinu mikil óánægja annarra útgefenda sem ekki hafa fengið sambærilega og ókeypis kynningu á sinni útgáfu hjá Ríkisútvarpinu.  Heimildir Litlu Frjálsu að sumir útgefendur hyggist kvarta formlega yfir þessu framtaki stofnunarinnar.