Verður stemming fyrir HM í Rússlandi?



Það er að byggjast upp stemming fyrir okkar mönnum og HM á næsta ári. Í fyrsta skipti ætlar Ísland að taka þátt í heimsmeistarakeppninni í fótbolta - líklega stærstu íþróttahátíð heimsins, á eftir Ólympíuleikunum.

Ferðaskrifstofur láta vita af spenningi fyrir mótinu og tilkynna okkur að það sé mikið "hringt og spurt" um miða og gistingu í Rússlandi.

Icelandair var með auglýsingu í Morgunblaðinu á mánudaginn - “Komdu með okkur til Rússlands” var fyrirsögnin. Í grein á MBL á þriðjudag kemur fram að amk eitt flug verði á alla íslensku leikina.

Ljóst er að íslensku flugfélögin tvö - WOW og Icelandair - ætla sér bæði stóra sneið af þeirri eftirspurn sem skapast eftir flugi til Rússlands, þegar vitað verður hvar í Rússlandi leikir íslenska landsliðsins verða haldnir.

Það er einmitt málið.  Þetta verður kannski ekki sama stemmingin og var í Frakkland í fyrra, þar sem vegalengdirnar eru meiri og Rússland er ekki eins mikið "í leiðinni" og Frakkland var.  Þá gátu áhugasamir skipulagt sumarfríin sín með hliðsjón af Evrópukeppninni og slegið tvær "flugur í sama höfuðið" - frí og fótbolti.

Þetta verður erfiðara næsta sumar, því ekki er líklegt að íslenskar fjölskyldur fjölmenni til Rússlands í sumarfrí!

Það liggur í loftinu að sama stemming og var í Frakklandi í fyrra verður vart endurtekin og það verða færri íslendingar á pöllunum að styðja strákana okkar.