Síðasti dagur 365 er í dag!



Í dag er stór dagur hjá 365.  Dagurinn markar endalok á rekstri Stöðvar 2 og fleiri miðla í eigu Jóns Ásgeirs og Ingibjargar Pálmadóttur. Vodafone tekur við rekstri félagsins föstudaginn 1. desember.

Aðdragandinn hefur verið langur og strangur og eflaust erfiður á köflum fyrir alla aðila.  Það er mál manna að þau hjónin hafi gert góða sölu, miðað við stöðu félagins og þeirra framtíðarhorfa sem spáð er fyrir þessa tegund rekstrar.

Eftir yfirtöku Vodafone á 365 verða Jón og Ingibjörg samt áfram stærstu einstöku eigendur félagins, þ.e.a.s. Vodafone - eins furðulegt og það hljómar - og munu því áfram hafa áhrif á rekstur þess í gegnum stjórnarsetu.  Þetta orsakast af því að þau fá greitt hluta kaupverðsins í hlutabréfum í Vodafone.

Vodafone tekur yfir allan rekstur og eigur 365 fyrir utan Fréttablaðið sem verður áfram í eigu þeirra hjóna.  Með kaupunum fylgir samt sú kvöð, að innan 18 mánaða þurfa þau að losa um eignarhlut sinn í Fréttablaðinu eða í Vodafone.  Þau mega sem sagt ekki eiga hlut í báðum félögunum á sama tíma.

Þrátt fyrir þetta, er samkvæmt heimildum Litlu Frjálsu, unnið að því að setja upp vefsvæði fyrir Fréttablaðið sem á að styðja við rekstur þess á komandi mánuðum - sem síðan verður vissulega í samkeppni við www.visir.is, sem Vodafone tekur yfir og er hluti kaupanna.

Rekstrarumhverfi Stöðvar 2 hefur breyst gríðarlega mikið síðustu ár.  Þar er mestu um að kenna, almennu ólöglegu niðurhali á þáttum og kvikmyndum, breyttu hegðunarmynstri neytenda og aukið og ódýrara framboð af sjónvarpsefni frá erlendum myndveitum eins og Netflix, Hulu, Amazon og fleirum.

Það er því ansi kjarkmikil ákvörðun eigenda Vodafone að leggjast í kaup á 365, þar sem augljóst er að reksturinn verður á brattan að sækja, bæði á sviði áskriftarsjónvarps og sölu auglýsinga.

Eins og gefur að skilja spáir viðskiptalífið mikið í spilin og veltir fyrir sér hvert sé markmið Vodafone með þessum kaupum.  Fyrir liggur að gera þarf miklar breytingar á rekstrinum til að ná fram þeirri hagræðingu sem réttlætir kaupin og tengda fjárfestingu og ekki síst til að takast á við framtíðina.

Þeirri spurningu hefur heldur ekki verið svarað hvað vaki fyrir Vodafone með kaupum á starfsemi sem lítil eða engin þekking er á innandyra.  Mikill eðlismunur er á rekstri símafélags og fjölmiðlafyrirtækis, ekki síst þegar kemur að efnislegum þáttum eins og framleiðslu og sölu.

Það er því viðbúið að margar áskoranir mæti stjórnendum Vodafone á næstunni við að innleiða rekstur 365 inn í rekstur Vodafone.  Reynslan sýnir að 9 af hverju 10 samrunum mistakast og verða allri starfseminni til aukins vanda með tilheyrandi kostnaði. Vera má að þessi samruni takist, en hann mun verða tímafrekur og erfiður, þar sem rekstur fjölmiðlafyrirtækis er margt öðruvísi en annarra.

Það er líka spurt hvað Jón og Ingibjörg ætli sér með Fréttablaðið, sem hefur líka átt á brattann að sækja.  Einn viðmælandi Litlu Frjálsu fullyrðir að Fréttablaðið og DV samsteypan muni sameinast í fyrstu umferð og síðan muni hún aftur sameinast Vodafone á seinni stigum.  Ef það er planið,  þá er ljóst að hjónin hafa gert "díl aldarinnar" - selt erfiðan rekstur, fengið hlutafé og pening og eru samt stærstu eigendur í sama félagi og þau seldu á fyrri stigum.  Þetta væri auðvitað flott mót og þar myndu þau sigra íslandsmeistarakeppnina í snúningum fyrirtækja, án atrenu og verða krýnd konungur og drottning "dílanna" við það tækifæri!

Starfsfólk 365 bindur miklar vonir við yfirtöku Vodafone á 365 og er von þeirra að breytingin verði til batnaðar, ekki síst á viði stjórnunar auk þess sem félagið hefur ekki haft það fjármagn úr að spila sem nauðsynlegt er.  Það verður því athyglisvert að fylgjast með á næstu vikum og mánuðum hvernig nýjum eigendum tekst að vinna úr þessu verkefni og koma jafnvægi á rekstur sameinaðs félags.  Það liggur í loftinu að það verður erfitt verkefni og eflaust sársaukafullt.