Nova fer aðrar leiðir - Ókeypis símtöl og segir bless við bankann!
Meðan Vodafone fer troðnar slóðir og haslar sér völl á sviði útvarps og sjónvarps, með því að kaupa 365, kemur Nova enn á óvart með nýjum og ferskum áherslum og býður ókeypis símtöl og SMS.

Fyrir meira en 10 árum síðan bauð Nova, fyrst allra símafélaga, s.k. "Frítt Nova í Nova" sem tryggði þeim umtalsvert samkeppnisforskot. Félaginu var ekki spáð langlífi eða vinsældum en er nú stærsta farsímafélag landsins.  Það er ekki síst vegna þeirra eigileika Nova og stjórnenda þess að fara aldrei troðnar slóðir gagnvart viðskiptavinum sínum, sem tryggir félaginu þessa forystu.

Litla Frjálsa hefur kynnt sér nýjasta útspil Nova, sem er í fyrsta lagi að hætta gjaldtöku á símtölum og SMS og í öðru lagi að hefja innreið sína inn á fjármálamarkaðinn með því að bjóða viðskiptavinum sínum lána- og greiðsluþjónustu í gegnum farsímann og smáforrit.

Það er ljóst að Nova ætlar sér ekkert að berjast um viðskiptavinina með úreltum vinnubrögðum, heldur að halda forsystu sinni með ferskri nálgun á verkefnin, frumkvæði og svo sannarlega að hugsa út fyrir boxið.

Breyting á lagaumhverfi í fjármálaþjónustu mun opna fyrir fjölmörg tækifæri, fyrir ný og núverandi fyrirtæki, sem hafa áhuga á að hasla sér völl í greiðslumiðlun og lánastarfsemi.  Nova ætlar sér þar forystu hlutverk enda hafa stjórnendur Nova lengi undirbúið þetta útspil.

Það er athyglisvert að bera saman áherslur Nova og Vodafone.  Nova er að leita tækifæra með nýjungum og hugviti - en Vodafone er að fara í áhættumikinn og skuldsettan samruna við fyrirtæki (365) sem hefur verið að glata markaðshlutdeild og á markaði þar sem miklar tækni og hegðunarbreytingar grafa undan viðskiptamódelinu.  Rétt er að geta þess að stjórnendur Símans hættu að innheimta áskriftargjald fyrir Skjáinn (Skjár 1) og eru nú útsendingar þeirrar stöðvar opnar.  Var það gert til að mæta breyttum kröfum neytenda auk þess sem Síminn setti alla þætti Stellu Blómkvist í sýningu fyrir síðustu helgi, rétt eins og Netflix gerir fyrir nýjar sjónvarpsseríur.

Við lifum á spennandi tímum og fyrirtæki verða að bregðast við samkeppninni með öðrum hætti en oft áður.  Nova og starfsfólk þess fyrirtæki sýna það svo sannarlega að þau eru rétt að byrja.

Það liggur í loftinu að samkeppnin á farsímamarkaði á eftir að verða harðari og litríkari á nýju ári.

Mynd: Haraldur Guðjónsson / VB