Nespresso kaffihylkin verða ódýr á Íslandi!
Nú er loksins að opna Nespresso verslun á Íslandi eftir mikið samningaþóf.  Fyrir þá sem ekki vita, þá er Nespresso, swissneskt fyrirtæki sem selur kaffi í hylkjum, í þar til gerðar sérstakar Nespresso kaffivélar.

Nespresso kaffi hefur notið mikilla vinsælda á undanförnum árum, enda gæðin góð og einfalt er að fá sér bragðgott kaffi með lítilli fyrirhöfn.  Nespresso verslanirnar gera út á að hafa alla umgjörð sem glæsilegasta og höfða mikið til þeirra sem láta sér flottan lífstíl varða.

Þegar kemur að alþjóðlegri merkjavöru, eins og oft áður, hefur Ísland ekki verið á kortinu hjá Nespresso fyrr en nú og hafa því þeir sem hafa vanið sig á Nespresso kaffið þurft að verða sér út um kaffihylki með ýmsum hætti.

Sannir íslendingar láta ekkert stoppa sig og lang flestir kaupa eða láta kaupa fyrir sig kaffi erlendis og taka með heim í stórum umbúðum.  Kaffihylkin hafa verið ódýrust á Italíu á ca 0,30 Euro cent og í Bandaríkjunum á ca 0,70 US Cent.

Hylkin hafa einnig fengist á Íslandi öðru hvoru og hafa þá kostað á bilinu 120 til 150 kall stykkið.

Með tilkomu Nespresso verslunar má búast við sprengju í innflutningi á Nespresso kaffivélum og hylkjum, þar sem verðið er bæði gott og einfalt verður fyrir þá notendur sem fyrir eru að ná sér í ný hylki.  Þar með mun "smyglið" hætta því verðið á Íslandi er 59 krónur á hvert kaffi hylki, eins og sjá má á myndinni hér að ofan.

Skuggahlið á Nespresso.

Fyrirtækið hefur legið undir ámæli fyrir að vera óumhverfisvænt og að Nespresso kaffihylkin séu ekki endurvinnanleg.  Þessu hefur fyrirtækið neitað og vinnur nú hörðum höndum að því að laga ásýnd sína hvað þetta varðar, t.d. með því að taka á móti notuðum hylkjum og eða bjóða viðskiptavinum sérstaka poka fyrir gömul hylki til endurvinnslu. Ritstjórn hefur spurst fyrir um hvernig þessu verður háttað hér á landi og samkvæmt heimildum Litlu Frjálsu, verður hægt að skila notuðum kaffihylkjum til endurvinnslu í verslunina í Kringlunni.

Hverju sem því líður, þá hefur ritstjórn Litlu Frjálsu notið þess að hafa Nespresso vél í nokkur ár og hefur ekki í hyggju að skipta.  Það liggur því í loftinu að hún þarf því að herða sig í umhverfismálum og verða sér út um poka fyrir notuð kaffihylki.....  sem eru mörg!