Deilur í dalnum




Það er látið að því liggja í Fréttablaðinu í dag, laugardag, að Björgólfur Thor sé eigandi eða bakhjarl Sigurðar G Guðjónssonar og félaga í DV og Pressunni.

Þetta er í fyrsta skipti sem þessi kenning kemur upp á yfirborðið eftir að hafa farið nokkrar hringi manna á milli í viðskiptalífinu, undanfarna mánuði en nokkrar kenningar um eignarhaldið á fjölmiðla samsteypunni eru uppi. Flestar eru á þann veg að Sigurður hafi fengið með sér trausta vini og viðskiptafélaga til að leggja til fé til kaupanna og hann hafi því ekki lagt félaginu til fé sjálfur.

Hverju sem því líður, þá er ljóst að uppi er ágreiningur milli aðila um frágang og viðskilnað á kaupum miðlanna frá Dalnum og viðbúið að framundan séu miklar deilur milli aðila.

Ný stjórn Pressunar sendi frá sér yfirlýsingu í gærkvöldi þar sem atburðarrásin er rakin og gefur góða mynd af stöðu mála. Samkvæmt henni virðast aðilar vera ósammála um hvernig atburðarrásin var og mun það verða verkefni lögmannsins og nýs stjórnarformanns Pressunar, Ómars Valdimarssonar, að greiða úr.

Sé sú kenning rétt að Björgólfur Thor sé þarna einhversstaðar á bakvið, liggur það í loftinu að hann hafi af þessu mikla skemmtun, a.m.k. er þetta ekki fjárfesting sem tekin er á forsendum arðsemi.

Vel má sjá fyrir sér, ef rétt er, að þarna sjái Björgólfur Thor tækifæri til að “pirra” fyrrum viðskiptafélaga sinn, Róbert Wesman, en þeir hafa eldað grátt silfur saman undanfarin ár.  Ef það er raunin, er nokkuð ljóst að honum hefur tekist ætlunarverk sitt.